Gróðurveggur með kryddjurtum
Eins og áður hefur komið fram á þessari síðu hafa vinsældir gróðurveggja aukist verulega á síðustu árum. Veggirnir eru ýmist utan- eða innandyra og oft uppbyggðir með vökvunarkerfi. Gróðurveggir sem staðsettir eru innandyra eru yfirleitt mun flóknari í uppbyggingu, m.a. þar sem tryggja þarf að vatn valdi ekki skaða í rýminu. Einnig þarf í flestum tilfellum að koma fyrir lýsingarbúnaði til að plönturnar þrífist.
Gróðurveggir sem staðsettir eru utandyra eru einfaldari hvað þetta snertir. Yfirleitt er hægt að staðsetja vegginn þannig að vatn sem rennur frá veggnum við vökvun eigi greiða leið í niðurfall eða í jarðveg. Birtuskilyrði eru einnig yfirleitt betri utandyra og ekki þörf á aukalýsingu.
Við hjá Horticum ákváðum að setja saman nýjan gróðurvegg og planta kryddjurtum í hann ásamt jarðarberjum. Hér er um tilraunavegg nr. 2 að ræða en 2015 settum við saman annan gróðurvegg (tilraunavegg nr.1) úr öðrum efnum og með öðrum plöntum, sjá: http://horticum.is/?p=1901
Nýi veggurinn er gerður úr fiberdúkum, með PVC plötu í botninum og innbyggðu vökvunarkerfi. Þessi gerð er yfirleitt kölluð vadadúkur og byggir á svipaðri hugmyndafræði og veggir eftir Patrick Blanc sem er trúlega þekktasti sérfræðingur í uppbyggingu gróðurveggja.
Í veggnum eru samtals 64 plöntur á 1,5 m2 þ.e. jarðarber (2 sortir), salvía (2 sortir), óreganó (2 sortir), timian (3 sortir), steinselja (2 sortir), hjartarfró, mynta og estragon.
Comments are closed.