Grassláttur

Grassláttur

Grassláttur

Hugmyndir manna um fallega grasflöt eru misjafnar, allt frá rennisléttum lágskornum golfflötum yfir í hávaxin bylgjótt grasengi. Eitt af því sem ræður mestu um heilbrigði og útlit grassvæða er sláttuhæð og tíðni slátta. Hér verður fjallað um grasslátt í hefðbundnum heimagörðum.

Gera má ráð fyrir fyrsta slætti á grasflötum um miðjan maímánuð en það er þó háð tíðarfari hverju sinni. Best er að góður vöxtur sé kominn í grasið áður en slegið er.

Tilgangurinn

Venjulegar grasflatir innihalda yfirleitt nokkrar grastegundir með misjafna eiginleika og þarfir. Grasplöntur sem vaxa við náttúrulegar aðstæður mynda strá, þroska fræ og hafa öflugt rótarkerfi. Almennt séð hefur stöðugur sláttur neikvæð áhrif á rótarkerfið, m.a. verður það grunnstæðara og umfangsminna þegar græni hluti plöntunnar er stöðugt skertur og haldið niðri. Einnig fer mikil orka frá grasplöntunni í að loka sárum sem myndast við sláttinn og verja sig þannig gegn sjúkdómum. Í dag hafa verið þróaðir, með kynbótum, grasstofnar sem þola endurtekin slátt betur en aðrir. Sem fyrr segir innihalda flestar ræktaðar grasflatir, t.d. aðkeyptar túnþökur og sáningarblöndur, fleiri en eina grastegund með misjafna vaxtareiginleika. Sé grasið ekki slegið reglulega munu hávaxnar grastegundir smám saman ná yfirhöndinni í flötinni og skyggja út lágvaxnari tegundir. Einnig örvar slátturinn myndun hliðarsprota á rótum margra tegunda, svo sem vallarsveifgrass, sem þéttir þannig svörðinn og lokar honum fyrir samkeppnisplöntum (t.d. illgresi). Segja má að markmiðið með slættinum sé að viðhalda þéttri og heilbrigðri grasflöt en mikilvægt er að vera meðvitaður um áhrifin og álagið sem slátturinn veldur grasinu og t.d. bæta fyrir það með vökvun, áburðargjöf eða öðrum jarðvegsbætandi aðgerðum.

Undirbúningurinn

Fyrir fyrsta slátt er gott að raka kröftuglega yfir grasflötina. Við það losnar um efsta hluta yfirborðsins, t.d. dauðar plöntuleifar og mosa sem liggja gjarnan þétt í sverðinum og hindra heilbrigða loftun. Einnig geta steinar eða aðrir hlutir leynst í grasinu eftir veturinn sem valdið geta skemmdum á sláttuvélum og jafnvel þeyst undan vélum með miklum krafti og meðfylgjandi hættu á slysum eða tjóni. Raksturinn lyftir að auki grasinu og tryggir að slátturinn verði markvissari.

Gott er að gefa áburð á grasflatir um miðjan maí og aftur í júní (sjá nánar í kafla um áburðargjöf). Einnig er algengt að gefið sé kalk yfir grasflatir til að vinna gegn mosavexti (sjá nánar í kafla um aðgerðir gegn mosa).

Framkvæmdin

Best er að hefja slátt í seinni hluta maí mánaðar þegar vöxtur er greinilega hafinn og mesta hætta á næturfrosti er liðin hjá. Í fyrsta slætti er ráðlegt að stilla sláttuvélina í háa stillingu svo ekki sé tekið of mikið af blaðvextinum í einu. Betra er að leyfa grasinu að ná góðum vexti, þéttleika og sprettu. Gras er oft viðkvæmt á vorin, þegar bleyta og súrefnisleysi er í vaxtarlaginu, og grasið á í samkeppni við illgresi og mosa. Því getur skipt sköpum að leyfa því að ná góðum vexti í upphafi tímabils sem stuðlar að heilbrigðum vexti, ekki síst heilbrigðum rótarvexti, og þéttingu svarðar.

Sláttur og sláttuhæð

Samkvæmt almennri þumalfingursreglu á aldrei að slá meira en sem nemur 1/3 af hæð grassins í einu. Betra er að slá oftar og minna magn í einu, heldur en sjaldan og mikið magn í einu. Gera má ráð fyrir að venjulegar grasflatir séu slegnar fyrst þegar grasið hefur náð u.þ.b. 8 cm hæð og er sláttuhæðin þá stillt í 6 cm hæð. Ágætt er að fyrstu 2-3 slættir séu í þeirri sláttuhæð. Hæðin er svo markvisst lækkuð niður í 3,5-4 cm sláttuhæð yfir hásumarið, þ.e.a.s. ef garðeigandinn hefur áhuga á snöggsleginni flöt. Þegar líður að hausti er sláttuhæðin aftur hækkuð upp og síðasti sláttur framkvæmdur í 6 cm sláttuhæð, t.d. um miðjann september (háð tíðarfari). Venjulega er lítil grasspretta á þessu tímabili. Á þennan hátt fer grasið hærra inn í veturinn og þannig dregur úr líkum á frostskaða.

Ekki er ráðlegt að slá grasið snöggt ef hætta er á kuldaköflum og næturfrosti þar sem það eykur verulega líkur á kali, dregur úr vaxtargetu blaðs og rótar, mótstöðu gegn sjúkdómum og samkeppni við illgresi og mosa. Í þurrkatíð gildir það sama, grasið nær sér betur á strik ef það er ekki lágt slegið.

Það er algengur misskilningur að mosi þrífist vel í hávöxnu grasi. Þvert á móti veikir hávaxið gras mosann og skyggir hann burt. Sé grasið slegið óheppilega lágt veikir það hins vegar mótstöðukraft grassins gegn ágengnum illgresistegundum, m.a. mosa.

Afar mikilvægt er að slá aldrei niður í svörð. Grasplantan er viðkvæm fyrir skemmdum á rótarhálsi en þar fer blaðvöxturinn fer fram. Vélorf með nælonþræði eru sérstaklega vandmeðfarin í þessu sambandi. Athugið einnig að sláttuorf geta valdið alvarlegum skemmdum á trjá- og runnagróðri þ.e. ef nælonþráður fer utan í börk á trjástofni. Trjástofnar eru sérlega viðkvæmir á rótarhálsi, neðst við yfirborðið, og eiga erfitt með að loka sárum eða bregðast við skemmdum á þeim hluta trésins. Í þeim tilfellum sem trjá- og runnagróður er staðsettur á grasflötum er best er að klippa frá þeim með handklippum.

Vélarnar

Segja má að til séu tvær gerðir sláttuvéla, þ.e. svo kölluð keflasláttuvél þar sem nokkrir ljáir snúast á rúllukefli á móti undirliggjandi botnblaði. Slíkar sláttuvélar fyrir heimilisgarða eru sjaldnast með mótor heldur er þeim ýtt með handafli. Nefna má ýmsa kosti við slíkar vélar, t.d. lítill stofn- og rekstrarkostnaður, hvorki hávaða né loftmengun og yfirleitt slá slíkar vélar grasið vel, þ.e. ef ljárinn er vel brýndur. Hin hefðbundna mótorsláttuvél er yfirleitt með einn láréttan ljá sem snýst undir vélinni eins og þyrluspaði. Við sláttinn myndast gjarnan uppsog sem hreinsar svörðinn og fjarlægir efni úr yfirborðinu. Þetta á sér í lagi við um vélar sem búnar eru safnkassa. Hvort sem sláttuvél er útbúin með safnara eða ekki er alltaf gott að raka reglulega yfir svörðinn til að losa um þjöppun, dautt efni og mosa.

Athugið að í þeim tilfellum sem grasflöt er slegin oftar og minna magn í einu má gjarnan láta heyið liggja eftir og sleppa rakstri. Heyið brotnar hratt niður í jarðveginn, hefur jákvæð áhrif á vaxtarlagið og gefur næringu til róta grassins. Þó skal gæta þess að hvergi liggi eftir þykkt heylag yfir grasinu því við það gulnar undirliggjandi gras eða jafnvel kafnar og deyr. Rétt er að geta þess að gras sem látið er liggja eftir og brotna niður í svörðinn myndar með tímanum svokallað filtlag (þæfi) í rótarlaginu sem getur valdið vandræðum, m.t.t. loftunar, sýrustigs og vatnsleiðni. Góð umhirða og rétt áburðargjöf, t.d. lífrænn áburður stuðlar að niðurbroti filtlagsins og dregur verulega úr líkum á að vandamál skapist.

Afar mikilvægt er að hnífar sláttuvéla séu vel brýndir og hreinir. Bitlaus hnífur tætir upp blaðendana svo grasið á erfitt með að loka sárinu og visnar í endana. Þar með verður sláttuhæðin lægri en ætlunin var í upphafi, veldur grasinu álagi og eykur einnig hættuna á sjúkdómum. Best er að yfirfara hnífa og ljái einu sinni á ári, t.d. í upphafi tímabils, smyrja legur og þrífa vélina t.d. með Garðaundra sem er náttúruleg sápa og losar vel um óhreinindi, t.d. harpix.

Gott getur verið að skipta um áttir á milli slátta, þ.e. að slá til skiptis þvert á fyrri sláttustefnu. Það tryggir nákvæmari slátt og dregur úr líkum á þjöppun í jarðveginum. Ekki er ráðlegt að slá í mikilli bleytu, sérstaklega ef um hátt gras er að ræða. Sláttuvélar sökkva gjarnan dýpra niður í blautan jarðveg og við það verður sláttuhæðin lægri en reiknað var með í upphafi.

Athugið að aldrei skal hella bensíni eða olíu á sláttuvél sem staðsett er á grasflöt þar sem bensínið getur sullast niður, drepið grasið og mengað jarðveginn. Einnig ber að varast að hella bensíni á heitar vélar vegna hættu á íkveikju. Gott er að hreinsa sláttuvélar eftir hvern slátt, t.d. skola undan þeim með vatni. Erfitt getur verið að ná gömlu grasi sem þornar fast við vélina eftir slátt.

Samkvæmt ofangreindu er gott er að hafa eftirfarandi atriði í huga við grasslátt:

• Raka yfir grasflötina fyrir fyrsta slátt

• Stilla sláttuvél í háa sláttuhæð fyrstu skiptin

• Aldrei slá meira en 1/3 af grashæð í einu

• Aldrei slá niður í rótarháls

• Nota breytilegar sláttustefnur

• Ekki láta mikið hey liggja eftir á grassvæðum

• Gæta þess að hnífar séu vel brýndir

• Ekki slá í mikilli bleytu

• Stilla sláttuvél í háa stillingu fyrir síðustu slætti

• Aldrei hella bensíni eða olíu á vélar á grassvæðum

• Hreinsa sláttuvél eftir hvern slátt

Efni og verkfæri

Ýmsar góðar sláttuvélar bjóðast til sölu eða leigu. Rafmagnssláttuvélar eru léttar og meðfærilegar en takmarkast við lengd á rafmagnssnúru. Bensínsláttuvélar eru almennt öflugri en jafnframt þyngri. Hægt er að fá sláttuvélar útbúnar með safnkassa sem sparar rakstur í lok sláttar. Einnig eru fáanlegar handsláttuvélar sem ýtt er á undan sér með handafli. Þær eru útbúnar með sláttukefli sem hefur 5-6 sláttuljái.

Athugið að sláttuvélar eru hættuleg verkfæri með beittum hnífum. Árlega verða alvarleg slys vegna ógætilegrar meðferðar á sláttuvélum. Best er að nota skó með stáltá, heyrnarhlífar og öryggisgleraugu þegar slegið er og aldrei ættu börn að nota sláttuvélar. Mikilvægt er að öryggisrofar séu ávallt í lagi, t.d haldrofar á handföngum en þá má t.d. aldrei festa inni (sem er algengur slysavaldur). Einnig ætti aldrei að hella bensíni á vél sem er í gangi né hreinsa undan vél sem er í gangi. Ávallt ætti að aftengja kerti á bensínvélum eða aftengja rafmagn á rafmagnssláttuvélum ef nauðsynlegt reynist að eiga við hnífa t.d. hreinsa þá.

Twitter Digg Delicious Stumbleupon Technorati Facebook

Comments are closed.