Um áburðargjöf

Um áburðargjöf

Um áburðargjöf

Venjulega áburðargjöf geta flestir framkvæmt sjálfir í garði sínum. Margar tegundir áburðar eru í boði hérlendis og er bæði hægt að velja lífrænan og tilbúinn áburð.

Áður en hafist er handa er rétt að kynna sér hvaða aðferðum best er að beita, hvers konar áburð skal velja og í hvaða magni skal nota viðkomandi áburðartegund. Hér eru einfaldar leiðbeiningar um undirbúninginn, áburðargjöfina sjálfa og verkfærin.

Undirbúningurinn

Tilgangurinn með áburðargjöf í heimilisgörðum er að tryggja gróðrinum nægan aðgang að næringarefnunum sem eru þeim lífsnauðsynleg.

Áburðargjöf er í eðli sínu flókin og krefst oft og tíðum mælinga til þess að fullnægjandi árangur náist fram, t.d. í landbúnaði. Annað gildir um venjulega áburðargjöf í heimilisgörðum þar sem unnið er með aðalnæringarefnin, köfnunarefni (nitur), fosfór og kalí, og ekki gerðar kröfur um hámarksuppskeru.

Plöntur taka næringarefni til sín úr jarðveginum. Næringarefnin sem eru bundin í jarðveginum og uppleyst í jarðvatninu nýtast plöntunum og af þeim þarf að vera hæfilegt magn til þess að plönturnar vaxi og dafni eðlilega.

Hvenær er rétti tíminn og aðstæðurnar?

Á vorin byrja plöntur að lifna við eftir vetrardvala, brum springa út og vöxturinn hefst. Til þess nota plönturnar orku sem er uppsöfnuð í vefjum þeirra m.a. í rótum. Á þessum tíma eiga þær erfitt með að taka upp næringarefni þegar jarðvegurinn er kaldur og jafnvel enn þá frost í jörð. Af þessu leiðir að lítið gagn er af áburðargjöf mjög snemma á vorin.

Ráðlegt er að skipta áburðargjöf í tvennt þ.e.a.s. gefa áburðarskammta tvisvar sinnum á vaxtartímabili þar sem það nýtist plöntunum betur. Oftast er miðað við 15. maí með fyrstu gjöf og 15.-20. júní með þá seinni. Til viðbótar þessu má bæta við einni gjöf af kalí og fosfóráburði fyrir miðjan júlí en það stuðlar að betri undirbúningi  plantna fyrir veturinn. Best er að bera á þegar jarðvegurinn er rakur. Ef borið er á í þurrkatíð er hætta á að áburðurinn svíði blöð plantna og valdi skemmdum. Því verður að vökva yfir svæðið, ef því verður við komið.

Jarðvegurinn skiptir öllu!

Eftir því sem jarðvegurinn er betri, þeim mun betur nýtist áburðurinn sem við dreifum. Góður jarðvegur til ræktunar er blanda sands og moldar, þar sem heldni næringarefna, loftun og framræsla vatns er góð. Góður jarðvegur er frekar laus í sér og auðveldlega er hægt að kanna það með því að taka hnefafylli af jarðvegi, kreista hann vel saman, stinga fingrum í moldarkúluna og sjá hvort hann losnar ekki auðveldlega í sundur.

Slíkur jarðvegur heldur næringarefnunum betur, plönturnar ná þá að nýta sér þau og útskolun næringarefna verður minni. Einnig má benda á að plöntur sem lifa í svo góðum jarðvegi þurfa ekki jafnmikla áburðargjöf og þær sem lifa við aðrar aðstæður.

Áburðargjöfin

Áburðargjöf til gagns

Áburðargjöf getur gert gæfumuninn sé farið rétt að og magn áburðar miðað við aðstæður hverju sinni og þær plöntur sem verið er að bera á.

Íslenskur jarðvegur er þannig gerður að hann bindur fosfór (P) svo fast að lítill hluti er aðgengilegur fyrir rætur plantna. Köfnunarefni (N) sem plöntur nota mest til að vaxa er mjög lausbundið og skolast hratt úr jarðvegi. Einnig getur kalí (K) skort í jarðveginum.  Það eru  þessar tegundir næringarefna sem plönturnar nota mest af og við þurfum að sjá til að þær fái, í réttum mæli, til að ná fram góðum vexti. Heilbrigðar plöntur verja sig betur gegn ágangi meindýra, þær ná frekar að auka framleiðslu og mynda ný laufblöð og  komast þannig í gegnum áföllin.

Hafa skal í huga að við getum gert meira ógagn en gagn, ef ógætilega er farið með áburð. Sé jarðvegurinn ekki þeim mun næringarsnauðari er engin hætta á að plönturnar okkar drepist þótt þær fái ekki áburð. Þær geta hins vegar skaðast ef alltof miklum áburði er dreift á þær í einu!

Næringarefnin

Næringarefnin eða áburðarefnin sjálf gera plöntunum mismikið gagn . Ekkert af þeim má þó skorta því það takmarkar árangurinn.

N = Köfnunarefni/nitur gerir græna litinn enn meiri (aukin blaðgræna).  Köfnunarefni eykur framleiðslu og vöxt og er þess vegna ekki ráðlegt að gefa það eftir mitt sumar þar sem það eykur hættuna á skemmdum af völdum haustfrosts. Köfnunarefni skolast auðveldlega úr jarðvegi og því er betra að gefa það í fleiri skömmtum.

P = Fosfór stuðlar að betri orkubúskap plantna, styrkir rótarkerfi og vefi.

K= Kalí stuðlar að betri vatnsbúskap plantna, styrkir rótarkerfi og vefi. Kalí er ekki síst mikilvægt vörnum plantnanna gegn kali.

Kalk

Við tölum oft um kalkið sem áburð þótt raunverulega sé það frekar jarðvegsbætir. Plönturnar nota að vísu örlítið af næringarefninu kalsíum sem er í kalki en það telst ekki til aðalnæringarefna. Kalkið jafnar sýrustig jarðvegsins þannig að hann verður hæfari til að binda og miðla næringarefnum til plantanna.

Áburður og blöndur

Áburðartegundum hefur fjölgað og úrvalið er orðið nokkuð mikið, bæði af lífrænum og tilbúnum áburði.

Fyrir almennan garðeiganda eru til áburðarblöndur sem henta í flesta ræktun. Þær eru þó breytilegar en bera mjög auðkennandi nöfn t.d. ,,Grasáburður” fyrir grasflatir.  Blöndurnar innihalda fyrrnefnd næringarefni í hlutföllum sem reynst hafa vel. Í sumum þeirra eru einnig snefilefni, en það eru næringarefni sem plantan þarf í örlitlu magni. Lífrænu áburðargjafarnir eru góðir áburðargjafar og innihalda alltaf mörg snefilefni.

Tilbúinn áburður er kornaður og auðvelt er að dreifa honum jafnt út. Best er þó að nota áburðardreifara en það gefur jafnari og nákvæmari dreifingu. Algengt er að dreift sé alveg upp við stofna trjáa og runna en það ber að forðast þar sem það veldur skemmdum á gróðrinum. Áburðurinn nýtist best í jarðveginum undir laufþekjunni og þar á áburðurinn að lenda.

Lífrænn áburður er til í margskonar formi, oftast sem mjöl, vökvi (uppleystur) eða moldarkenndur. Dæmi um áburðargjafa eru búfjáráburður, molta, sveppamassi, þörungaáburður og hænsnaskítur. Þörungamjöli er best að dreifa í áburðardreifara og þarf mjölið að vera alveg þurrt. Lífrænum áburði í vökvaformi er blandað í  vatn og dreift t.d. í garðkönnu yfir beð eða grasflöt.

Húsdýraáburður hefur lengi verið nýttur til garðræktar og er dýrmætur jarðvegsbætir og áburðargjafi. Húsdýraáburð er oftast hægt að nálgast t.d. í hesthúsahverfum.  Hann hentar vel til blöndunar í jarðveg þegar verið er að búa til beð eða grasflatir.

Twitter Digg Delicious Stumbleupon Technorati Facebook

2 Responses to “Um áburðargjöf”

  1. olofma@gmail.com 31.10.2010 at 6:35 pm

    Halló Horticum

    Ég er með vandamál í kartöflugarðinum, það kemur kláði á kartöflurnar. Hef heyrt að ástæðan sé jarðvegsþreyta og áburaðarskortur. Get ég gefið áburð núna, fyrir veturinn og er það lausn?

    kveðja
    ÓM

  2. Svarið er komið inn undir liðinn “Spurt og svarað”