Leiðbeiningar um trjáfellingar

Leiðbeiningar um trjáfellingar

Leiðbeiningar um trjáfellingar

Reglur um trjáfellingar geta verið breytilegar á milli sveitarfélaga. Í flestum sveitarfélögum ber mönnum skylda til að sækja um leyfi til að fella tré sem eru hærri en 8 metrar eða eldri en 60 ára. Mikilvægt er að kynna sér reglur viðkomandi sveitarfélags og sækja um tilskilin leyfi áður en hafist er handa. Hér eru einfaldar leiðbeiningar um trjáfellingar, verkfærin, öryggi þitt og annarra.

Flestir geta fellt venjuleg garðtré, hafi þeir réttu verkfæri og fara rétt að hlutunum. Þó skal bent á að í vissum tilfellum er nauðsynlegt að fá fagmenn til verksins, t.d. þegar um hærri tré er að ræða eða ef aðstæður eru erfiðar.

Tilgangurinn

Tilgangur trjáfellinga getur verið margvíslegur. Öll tré hafa ákveðinn líftíma sem er breytilegur á milli tegunda. Einnig geta ýmsir sjúkdómar og vanþrif hrjáð trjágróður. Margar trjátegundir verða hávaxnar og skyggja þar af leiðandi á sól og útsýni. Best er að slíkum trjám sé ekki plantað í smærri garða eða á staði þar sem fyrirséð er að þau munu valda vandamálum og óánægju. Á móti kemur að slík tré gefa af sér mikið skjól gegn veðri og vindum og setja sterkan svip á útlit lóðar og götumyndir. Trjáfelling skal því alltaf vera vel ígrunduð þar sem hún verður ekki tekin til baka.

Hvenær er rétti tíminn?

Hægt er að fella tré á öllum árstímum. Lauftré er best að fella fyrir eða eftir laufgun því þá er umfangið minna.

Trjátegundir sem mynda gjarnan rótarskot, s.s. alaskaösp hafa tilhneigingu til að mynda mikið af rótarskotum eftir að þau eru felld. Hægt er að lágmarka myndun rótarskota með því að undirbúa tréð ári fyrir fellingu. Þá er framkvæmd svo kölluð ”barkarfletting” þar sem börkur er fjarlægður neðarlega á stofni á u.þ.b. 30 cm svæði umhverfis stofninn. Við það rofna flutningsleiðir næringarefna frá krónu til rótar og dregur verulega úr möguleika á myndun rótarskota. Tréð er síðan fellt næsta vor, að ári liðnu.

Trjáfelling

Þegar ákvörðun hefur verið tekin um að fella tré og öll nauðsynleg leyfi liggja fyrir er rétt að meta aðstæður til fellingar. Oft er hæð og staðsetning trés þannig að illmögulegt er að fella það í einu lagi. Þá er nauðsynlegt að fjarlægja tréð í nokkrum áföngum. Best að nota stöðugan stiga og byrja á að fjarlægja allar greinar þar til stofninn einn stendur eftir. Sýna þarf aðgát þar sem þungar greinar geta valdið slysum og tjóni. Gott er að fjarlægja nærliggjandi bíla og gæta þess að engin gangi undir tréð á meðan verkið er unnið.

Þegar búið er að minnka umfang trésins nægilega mikið til að fella það er gott að festa kaðal ofarlega í stofninn. Kaðallinn er notaður til að stýra falli trésins í rétta átt. Þvínæst er söguð svokölluð fallskora neðarlega á stofni trésins, í þá átt sem trénu er ætlað að falla í. Best er að saga fyrst lárétt inn í stofninn u.þ.b. 1/4 í gegnum stofn, færa sig síðan nokkrum cm ofar og saga á ská niður í fyrri skurðinn þar til fleygur losnar úr stofninum.

Þegar fallskoran er tilbúin togar einn í kaðalinn á meðan annar sagar rólega til móts við fallskoruna. Best er að hægja á þegar tréð fer að gefa eftir svo það falli rólega til jarðar. Við það minnka líkur á að gras eða nærliggjandi yfirborð skaðist. Að lokum er stofninn sagaður eins nálægt jörð og mögulegt er. Athugið að moldarjarðvegur fer afar illa með bit í sögum.

Ef rótarskot myndast eftir trjáfellingu skal fjarlægja þau reglulega með greinaklippum. Ekki er nauðsynlegt að nota eitur á rótarskot þar sem rótin gefst upp með tímanum.

Kollun

Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að saga ofan af stofni trjáa t.d. öspum. Slík aðgerð kallast “Kollun”. Þessi vaxtarstýring þykir afar óheppileg og skilar ekki árangri til lengri tíma. Eftir að sagað er ofan af trénu myndast mikill greinavöxtur við sárið þar sem tréð reynir að mynda nýjan topp. Króna trésins verður ójöfn, fær á sig leiðinlegt útlit og kallar á mikið viðhald, þ.e. klippingu. Einnig myndar tréð gjarnan mikið af rótarskotum. Alvarlegasti ókostur kollunar er að tréð getur ekki lokað sárinu, sjúkdómar og rot eiga greiðan aðgang að stofninum og tréð deyr á nokkrum árum.

Toppun / Stífing

Svo kölluð “Toppun” eða “Stýfing” hefur einnig færst í vöxt hér á landi. Í þessari vaxtarstýringu er klippt framan af grein / árssprota þegar búið er að ákveða endanlega lengd / hæð hennar. (Athugið að ekki er klippt eða sagað í stofn eins og í kollun). Klippingunni er fylgt eftir árlega eða oftar og í hvert skipti er klippt á sama stað. Þetta veldur því að tréð myndar mikið af hliðargreinum og verður mjög þétt. Aðferðin hentar alls ekki öllum trjátegundum en hefur virkað vel á ýmsar grenitegundir sem og lerki og ösp en kallar á mikið og nákvæmt viðhald.

Samkvæmt ofangreindri lýsingu er æskilegt að framkvæma trjáfellingu í þessari röð:

• Sækja um tilskilin leyfi til viðkomandi sveitarfélags.

• Tryggja að öll nauðsynleg verkfæri séu til staðar.

• Tryggja að engin standi eða gangi undir tréð við framkvæmd.

• Færa bíla eða annað sem getur orðið fyrir tjóni.

• Stærri tré þarf að fella í áföngum, fyrst greinar.

• Festa kaðal ofarlega í stofn til að stýra falli.

• Saga fallskoru / fleyg til að stýra fallinu.

• Láta einhvern toga í kaðal á meðan annar sagar tréð rólega niður.

• Að lokum skal fjarlægja stubb og jafnvel rótarhnaus.

Verkfærin

Keðjusög er mjög öflug sög sem hentar vel til að fella tré. Hægt er að fá rafmagns- eða bensínkeðjusagir í ýmsum stærðum. Keðjusagir eru hættuleg tæki sem ber að umgangast með varúð. Mælt er með að notaður sé til þess gerður hlífðarfatnaður og öryggisbúnaður.

Bogasög er öflug handsög sem hentar vel til að saga stærri greinar og stofna. Hægt er að fá sagarblað með misjöfnum grófleika.

Greinasög er öflug handsög sem er hentug þegar verið er að fækka greinum fyrir fellingu.

Grófar greinaklippur eru fáanlegar í ýmsum stærðum og gerðum. Þær henta vel til að klippa grófar greinar og rætur.

Stigi getur komið að góðum notum, t.d. þegar þarf að fækka greinum fyrir fellingu.

Öryggisleiðbeiningar:

• Keðjusagir eru afar hættuleg verkfæri og ber ávallt að umgangast með varúð.

• Nota skal viðeigandi hlífðarfatnað og öryggisbúnað.

• Allar klippur og sagir eru hættulegar og ber að meðhöndla með varúð.

• Allt klifur með klippur og sagir í trjám er hættulegt og ber að varast.

• Best er að nota vel stöðugan stiga og færa hann til eftir þörfum.

• Mikilvægt er að enginn sé undir eða nálægt trénu þegar greinar eru felldar þar sem þær geta verið þungar og erfitt að meta hvert þær falla.

• Gott er að nota sterkan kaðal til að stýra falli stofns.

• Mikilvægt er að geyma allar klippur og sagir þar sem börn ná ekki til.

Twitter Digg Delicious Stumbleupon Technorati Facebook

Comments are closed.