Jarðgerð í heimilisgarðinum
Hægt er að nýta allt lífrænt efni, sem til fellur í garðinum, ef aðstaða er til jarðgerðar. Fyrir þá sem áhuga hafa á að koma sér upp aðstöðu eða eru nú þegar með hana, eru hér einfaldar leiðbeiningar um jarðgerðina sjálfa, áhöldin og hvernig nýta má afurðina, sem oft hefur verið nefnd Molta, Molda eða safnhaugamold. Að ganga vel um og nýta lífrænan úrgang hefur í aldanna rás þótt sjálfsagður hlutur. Eftir nokkra lægð hafa menn nú aftur tekið að beina sjónum að þessari mikilvægu endurnýtingu.
Mold og molta
Moltan er ólík gróðurmold að því leyti að hún inniheldur ekki ólífræn efni (t.d. sand og leir) í neinu magni, eins og moldin gerir. Hún er ræktunarefni sem inniheldur mun meira af næringarefnum en moldin, hefur eiginleika til að halda næringu vel og er því áburðargjafi og jarðvegsbætir.
Niðurbrot efna
Lífrænt efni brotnar niður í náttúrunni. Laufblað sem fellur að hausti er óþekkjanlegt fáeinum mánuðum síðar. Við líkjum eftir þessu þegar við jarðgerum heima í garði. Lífrænu efni sem til fellur, bæði grófu og fínu, er blandað saman í haug. Bakteríur leika aðalhlutverkið í niðurbroti úrgangsins. Þegar réttu skilyrðin skapast í haugnum, raki er nægilegur og súrefni leikur um hann, tekur bakteríunum að fjölga og niðurbrot eykst að sama skapi. Bakteríurnar eru með þessu að afla sér lífsviðurværis og við hamaganginn losnar mikil hitaorka úr læðingi. Við það hitnar í haugnum. Allt hráefnið þarf að hitna og því er mikilvægt að snúa haugnum þannig að allt hráefnið fái hitameðhöndlun. Lesa meira um jarðgerð hér.
Comments are closed.