Haustverkin
Nú er samkvæmt íslensku dagatali komið haust á fróni og því til sönnunar eru margar trjá- og runnategundir byrjaðar að skarta sínum fögru haustlitum. Víða hanga fagurlitir berjaklasar, nýpur og fræ utan á greinum trjáa og runna, fuglum og mönnum til gleði og gagns.
Fyrir garðeigandann eru mörg garðverk sem heppilegt er að framkvæma á haustin, svokölluð haustverk. Eftirfarandi eru nokkrar hugmyndir og ábendingar fyrir haustglaða garðeigendur:
Haustlaukar: Eins og flestir vita er þetta tímabil heppilegt til að setja niður haustlauka, t.d. túlípana. Það má reyndar setja út fleiri lauktegundir, t.d. hvítlauk, sem er töluvert harðger og þolir í flestum tilfellum íslenska veturinn vel. Þá er best að kaupa hvítlauksknippi, losa í sundur hvert rif og setja niður með mjóa endan upp. Uppskerutími er eftir u.þ.b. eitt ár.
Útplöntun: Haustið er góður tími til útplöntunar á flestum trjá- og runnategundum og því er tilvalið að nýta sér þann árstíma til viðbótar við vor og fyrri part sumars. Haustið er einnig sá tími sem margar garðplöntustöðvar bjóða afslátt af trjám og runnum svo víða má gera hagstæð kaup.
Laufhreinsun: Á haustin tekur laufið að falla og fýkur til þar til það safnast fyrir á ýmsum óvelkomnum stöðum. Það er um að gera að nýta sér laufið, meðal annars í þekjur í beðum, til dæmis yfir fjölæringa eða aðrar viðkvæmar plöntur. Einnig er gott að nota laufið í heimajarðgerðina og safnkassann, framleiða sína eigin úrvals moltu.
Illgresishreinsun: Skilgreining á illgresi er röng planta á röngum stað. Flestar illgresistegundir eiga það þó sameiginlegt að vera afar nægjusamar og harðgerar. Þegar að vexti flestra plantna er lokið halda hörðustu illgresisplöntur áfram að vaxa og tryggja sér þannig yfirburði gagnavart nágrönnum sínum. Haustið er gott tímabil til að takast á við illgresið.
Grassláttur: Sumarið hefur verið sérlega gott ræktunarsumar sem má meðal annars sjá á góðum grasvexti. Margar grasflatir eru óvenju loðnar miðað við árstíma en það má vel taka einn lokaslátt um þessar mundir, best er þó að stilla sláttuvélina í hæstu stillingu til að tryggja að grasið sé ekki snöggslegið fyrir veturinn. Gott er að stilla vélina í um það bil 5 cm hæð en það minnkar líkur á frostskemmdum. Athugið að það er útbreiddur misskilningur að mosi þrífist vel í hávöxnu grasi og að hátt gras sé „gróðrarstía fyrir mosa“. Hið rétta er einmitt gagnstætt, mosi þrífst vel í snöggslegnu grasi.
Lesa má meira um haustverkin í bókinni “Vinnan í garðinum”
Comments are closed.