Er hægt að lækka þetta tré?

Er hægt að lækka þetta tré?

Þessa dagana eru margir byrjaðir á vorverkunum, klippa runna og tré, hreinsa beð og taka til eftir veturinn. Gróður kemur í flestum tilfellum vel undan vetri, sérstaklega í grónum hverfum þar sem hávaxin tré mynda skjól gegn veðri og vindum og hlífa lágvaxnari og viðkvæmari gróðri. Samhliða aukinni stærð trjágróðurs hefur rými í nágrenni þeirra minnkað, útsýni skerst og skuggi aukist. Í vissum tilfellum getur verið nauðsynlegt að fjarlægja tré en ákvörðun um slíkt úrræði getur oft verið erfið. Það er því ekki óeðlilegt að margir velti fyrir sér hvort mögulegt sé að lækka viðkomandi tré, stytta toppinn og hliðargreinar þannig að rými, birta og útsýni aukist. Yfirleitt er þessi aðgerð kölluð „kollun“, eða að kolla tréð.

Staðreyndin er hins vegar sú að tré geta ekki lokað sárum sem ganga þvert í gegnum stofn. Opið sár þvert á stofn mun valda sýkingu í berki og viðarvef, fyrr eða síðar, sem mun í öllum tilfellum stytta líftíma trésins verulega. Athugið að hér er ekki verið að fjalla um svokallaða „toppun“ eða „stífingu“, þar sem ársvöxtur er klipptur reglulega til að móta tré og halda í ákveðinni hæð.

IMG_6395

Tré sem hefur verið lækkað (kollað) mun leggja mikla orku í að loka sári og mynda nýjan topp, oft marga toppa. Af þessu leiðir að útlit trésins verður mjög óeðlilegt. Í mörgum tilfellum myndar tréð fjölda rótarskota til að reyna að bæta upp fyrir þann hluta sem fjarlægður var. Með tímanum geta tré sem hafa verið skemmd með þessum hætti valdið hættu, m.a. þar sem nýir toppar hafa mjög litla festu á stofni og brotna auðveldlega í roki. Auk þess geta tré fúnað að innanverðu og misst festu sem valdið getur því að tré fellur í heilu lagi með tilheyrandi slysa- og tjónahættu.

Svarið við spurningunni hér að ofan gæti því verið: „Já það er hægt að lækka þetta tré en það mun valda miklum skemmdum á trénu, m.a. sýkingu, óeðlilegum vexti og styttri líftíma, viðhaldið mun aukast verulega og það getur skapast slysahætta af ástandinu. Ef þú ákveður samt að lækka tréð geri ég ráð fyrir að þú munir láta fella það innan fárra ára“.

Þetta vita allir faglærðir garðyrkjumenn enda er þetta kennt ítarlega í öllum garðyrkjuskólum, bæði hérlendis og erlendis. Fjöldi fagtímarita og kennslubóka fjalla um þetta efni. Flestir garðyrkjumenn hafa séð þessa hluti með eigin augum og margir hafa þurft að fella tré sem voru skemmd með þessum hætti.

Verktakar sem halda öðru fram eru því að öllum líkindum ekki faglærðir. Hugsanlega getur verið um að ræða vanþekkingu, misskilning eða að staðreyndirnar samræmist ekki þeirra hagsmunum.

Twitter Digg Delicious Stumbleupon Technorati Facebook

Comments are closed.