Jólaljós í trjágróðri
Gleymum ekki að fjarlægja skreytingar úr trjágróðri.
Mikil aukning hefur orðið í ýmsum ljósaskreytingum yfir jólahátíðina og dimmustu vetrarmánuðina. Vinsælt er að skreyta trjágróður, jafnt lauftré sem barrtré og bjóða ýmsir garðyrkjuverktakar upp á þjónustu við uppsetningu á ljósaseríum í trjám. Uppsetning á ljósabúnaði getur verið vandasöm, tímafrek og kostnaðarsöm. Oft þarf að athafna sig úr stiga eða jafnvel krana við uppsetninguna. Að sama skapi getur verið erfitt að fjarlægja búnaðinn, m.a. þar sem hann flækist í greinum og fer illa í umstanginu. Einhverjir hafa því freistast til að láta ljósaseríur hanga í trjánum allt árið í þeirri von að perurnar endist í nokkur ár. Því miður valda ljósaseríur miklum skemmdum á trjágróðri, sérstaklega í þeim tilfellum sem þær eru ekki fjarlægðar á milli ára. Festingar, s.s. plastbensli, límbönd og vírar valda sárum á greinum og stofni. Straumbreytar sem límdir eru á stofna skemma börk og rafmagnsleiðslur sem vafðar eru eftir greinum og stofni geta sært og skemmt greinar í vexti og afmyndað.
Vissulega eru fallega skreytt tré mikil prýði og auka á hátíðarstemninguna í skammdeginu en þær mega ekki vera á kostnað heilbrigðis og líftíma þess gróðurs sem skreyttur er. Förum því varlega í uppsetningu skrauts á trjágróður og munum að fjarlægja búnað á milli ára. Hér að neðan má sjá nokkrar myndir af skemmdum af völdum ljósabúnaður sem ekki hefur verið fjarlægður á milli ára.
Comments are closed.