Förum vel með gróður borgarinnar
Að undanförnu hefur borið á ýmsum fróðleik frá verktökum sem sinna umhirðu garða og gróðursvæða. Einnig hafa verktakar hrint af stað svokölluðum „grisjunarátökum“ í hverfum borgarinnar þar sem boðið er upp á trjáfellingar á „frábærum kjörum“.
Af þessu tilefni vill undirritaður leiðrétta nokkur atriði og minna á, að það sem tekur náttúruna mörg ár að byggja upp, getum við eyðilagt á nokkrum mínútum með illa ígrunduðum og ófaglegum vinnubrögðum.
Gleymum ekki að stórvaxnar trjátegundir á borð við aspir og greni setja svip á borgarmyndina, skýla okkur fyrir veðri og vindum, binda ryk, hækka meðalhita og skapa betri skilyrði til útivistar. Sögusagnir um ágengar rætur aspa sem vísvitandi valda skemmdum á lögnum og mannvirkjum eru stórlega ýktar. Hið rétta er að allar trjárætur geta vaxið í lagnir og í jöfnu hlutfalli við vaxtarhraða og stærð. Vissulega valda tré í einhverjum tilfellum skerðingu á útsýni, rými og sólarljósi og því er mikilvægt að vega og meta kosti og ókosti viðkomandi trés, m.t.t. ofangreindra atriða og áhrifa þess á götumynd, áður en það er fellt. Það verður ekki tekið til baka.
Munum einnig að í Reykjavíkurborg eru öll tré sem eru hærri en átta metrar og sem eru eldri en 60 ára friðuð. Þessi tré má ekki fella nema með sérstöku leyfi garðyrkjustjóra.
Einhverjir virðast telja að mosi þrífist vel í hávöxnu grasi og því beri að slá grasið snöggt fyrir veturinn og að gott sé að gefa tilbúinn áburð fyrir veturinn. Þessar fullyrðingar eru alrangar. Snöggslegið gras er mun viðkvæmara fyrir frostskemmdum og samkeppni við illgresi, m.a. mosa. Mun betra er að grasið fari hæfilega loðið inn í veturinn og hátt gras skyggir mosann burt. Áburðargjöf fyrir veturinn, sem vörn gegn mosa, er einnig byggð á misskilningi. Almenn áburðargjöf þar sem blönduðum áburði, m.a. með köfnunarefni, er dreift á grassvæði getur hleypt af stað vexti og veikt grasið fyrir veturinn með slæmum afleiðingum. Áburðargjöf á haustin er yfirleitt aðeins notuð á golf- og knattspyrnuvöllum þar sem álag er mikið og sérfræðingar í viðhaldi á grasi starfa. Í þeim tilfellum er um kalíáburð að ræða sem notaður er til að styrkja grasið yfir veturinn en hefur ekkert með mosa að gera.
Ráðleggingar um haustklippingar og laufhreinsun garða eru varasamar. Haustið er sá tími sem tré eru viðkvæm fyrir sveppasjúkdómum, m.a. þar sem sár eftir klippingar ná ekki að lokast og mikið er um sveppagró í loftinu á þessum árstíma. Einnig má gera ráð fyrir að vetrarskemmdir, m.a. kal í greinum, komi verst niður á trjám sem klippt eru á haustin. Laufblöð sem liggja í beðum hlífa jarðvegi, rótum og jarðvegsdýrum. Yfir vetrartímann brotnar stór hluti laufblaðanna niður og eykur lífrænt innihald jarðvegsins. Leyfum því laufinu að liggja, a.m.k. í beðunum.
Vörumst auglýsingar sem innihalda fullyrðingar og „fróðleik“ frá aðilum sem hvorki hafa menntun né faglega reynslu á umræddu fagsviði. Það á við um öll fagsvið.
Magnús Bjarklind, skrúðgarðyrkjumeistari.
Comments are closed.