Uppbindingar

Uppbindingar

Uppbindingar

Þegar stærri stofntrjám (tré með einn leiðandi stofn) er plantað út getur verið nauðsynlegt að nota uppbindingar. Miða má við að tré sem eru hærri en 1 metri þurfi uppbindingu. Hér getur reyndar staðsetning skipt miklu, t.d. ef tréð er staðsett í góðu skjóli er almennt ekki þörf fyrir uppbindingu.

Tilgangur uppbindinga

Til eru nokkrar gerðir uppbindinga. Erlendis er algengt að tré séu bundin upp til að stýra vexti og mynda ákveðin form með trjánum. Einnig er algengt að tré og runnar sem bera aldin, t.d. berjarunnar og aldintré, séu bundin eða fest á grindur eða strengi.

Þær uppbindingar sem hér verður fjallað um snúa að rótfestu.

Megintilgangur venjulegra uppbindinga er að flýta fyrir því að tréð nái rótfestu. Eftir útplöntun hafa ræturnar enga festu og því getur tréð hreyfst til í jarðveginum þegar vindur blæs. Þetta tefur fyrir myndun fíngerðra róta sem taka upp næringarefni og vökva. Tréð þarf því að leggja mikla orku í myndun nýrra róta til að tryggja festu og stöðugleika. Við venjulegar aðstæður tekur það tré u.þ.b. 2-3 vaxtartímabil að ná góðri rótfestu. Þá er tímabært að fjarlægja uppbindinguna. Sé um hávaxin tré að ræða sem taka á sig mikin vind getur þurft að hafa uppbindinguna lengur. Í þeim tilfellum er mikilvægt að færa til gúmmíborða eða bönd sem notuð voru til festinga svo að börkur trésins skaðist ekki.

Athugið að öllum trjám er eiginlegt að hreyfast til í vindi, það styrkir stofninn og veldur því að hann þykknar. Uppbinding sem ekki er fjarlægð í lengri tíma veldur því að tréð fer að treysta á stuðninginn og þroskar þ.a.l. ekki heilbrigðan stofn- og rótarvöxt.

Framkvæmdin

Best er að vinna uppbindinguna samhliða útplöntun. Þegar staur eða staurum er komið fyrir er gott að setja þá nálægt hnausnum en forðast að berja þá í gegnum rótarkerfið. Oftast eru notaðir 1-4 staurar en það fer eftir stærð og staðsetningu hverju sinni. Algengt er að venjulegir girðingastaurar, 7-10 cm í þvermál og 140 cm háir, séu notaðir (ekki er nauðsynlegt að nota gagnvarið efni). Best er að staurinn nái u.þ.b. 50 cm niður fyrir yfirborð, til að tryggja nægilega festu. Staðsetja skal staura m.t.t. ríkjandi vindátta, t.d. að staðsetja staur vindmegin við tréð, þegar um einn staur er að ræða. Þannig er komið í veg fyrir að tréð sláist utan í staurinn og skaðist á berki og greinum.

Eins og áður hefur komið fram er megintilgangur uppbindingarinnar að festa ræturnar, þ.a.l. er best að staðsetja gúmmíborða eða festingar neðarlega á stofni, miða má við ¼ af hæð trésins. Algengt er að notaðir séu gúmmíborðar, u.þ.b. 5 cm breiðir, en einnig eru fáanleg kókosbönd o.fl. til festinga. Afar mikilvægt er að festingum sé vafið þétt að stofn til að koma í veg fyrir að núningur valdi skemmdum á berki.

Helsti ókostur þess að nota gúmmíborða er að raki undir gúmmíi veldur skemmdum á stofni og berki. Því getur þurfta að færa borðana til á milli ára.

Twitter Digg Delicious Stumbleupon Technorati Facebook

Comments are closed.