Garðaúðun og lífríkið í garðinum

Garðaúðun og lífríkið í garðinum

Nokkur orð um garðaúðun og lífríkið í garðinum.

Nú er kominn sá tími ársins að trjámaðkar herja í görðum landsmanna og margir garðeigendur spyrja sig: Þarf ég að láta „eitra“ hjá mér? Hér eru nokkur atriði sem garðeigandinn getur haft til hliðsjónar til þess að stuðla að því að sem minnst röskun verði á lífríki garðsins og jafnframt að viðkvæmur gróður sé varinn fyrir skemmdum.

Mikilvægt er að átta sig á því, að þegar úðað er með skordýraeitri, þá drepast öll skordýr sem eitrið lendir á, hvort sem þau eru skaðleg eða gagnleg. Hin gagnlegu skordýr lifa oft á skaðvöldunum sjálfum og veita okkur lið í baráttunni gegn þeim, en þau geta líka verið fæða fyrir önnur dýr. Þá er trjámaðkurinn sjálfur fæða fyrir fugla þannig að þegar við úðum erum við að draga úr fæðuframboði fyrir dýr sem við viljum hafa í kringum okkur. Lífríki garðsins er samofið og með úðun erum við að grípa óþyrmilega inn í gang náttúrunnar.

Barrtré, alaskaösp, gljávíðir, gullregn og sólber eru alveg laus við trjámaðk og ætti þess vegna aldrei að úða. Allmargar tegundir sem verða fyrir skemmdum ná sér aftur á strik þótt ekkert sé úðað vegna þess að ný laufblöð vaxa fram og fela þau sem hafa skemmst. Víðitegundir, toppar, kvistar og misplar geta orðið fyrir miklum skemmdum af völdum trjámaðks. Mikilvægt er að úða einungis þessar tegundir til þess að raska sem minnst vistkerfi garðsins.

Hvernig á að bregðast við þegar garðaúðarinn birtist og býður þjónustu sína? Fyrst skal kanna hvort viðkomandi er með leyfi til garðaúðunar og geti framvísað leyfisskírteini frá Umhverfisstofnun. Þá skal ávallt meta þörf fyrir úðun áður en hafist er handa og garðeigandinn ætti sjálfur að taka þátt í því mati með því að fara út í garðinn og upplifa ástandið í eigin persónu.

Ef skoðun leiðir í ljós skemmdir á gróðri en lítið sem ekkert sést af trjámaðki, þá er orðið of seint að úða og í raun og veru bara skaðlegt vegna þess að þá er verið að drepa saklaus nytjadýr, auk þess sem blaðverk plantnanna skaðast alltaf eitthvað við úðun. Ef hvorki sjást skemmdir né maðkur er heldur ekki gagn að úðun, þá hefur maðkurinn ekki klakist út, þannig að virka efnið nær ekki til hans. Rétti tíminn til þess að bregðast við er mjög stuttur og mikilvægt að fylgjast vel með og grípa til aðgerða á hárréttum tíma.

Látum náttúruna njóta vafans og notum skordýraeitur bara þegar nauðsyn ber til!

Björn Gunnlaugsson garðyrkjusérfræðingur

Twitter Digg Delicious Stumbleupon Technorati Facebook

Comments are closed.