Grassáning

Grassáning

Grassáning

Það hefur færst í vöxt á Íslandi að beita sáningu grasfræs til að koma upp grasflöt í einkagörðum, enda hefur framboð hentugra grastegunda aukist verulega á undanförnum árum. Fáanlegar eru fræblöndur sem henta jafnt til nýsáningar sem og til viðgerða eftir mosatætingu eða aðrar viðgerðir á grasflöt.

Eiginleikar einstakra grastegunda eru misjafnir hvað varðar slitstyrk, þol gegn þurrki eða hæfni til að fjölga sér og þéttast. Þar af leiðandi er í flestum tilfellum talið heppilegt að nota blöndu tegunda sem þrífast við sambærilegar aðstæður og hjálpa hver annarri við að mynda heilbrigða, þétta og slitsterka grasflöt.

Sem dæmi um góðar grastegundir fyrir grasflatir hefðbundinna heimilisgarða má nefna þrjár tegundir:

Vallarsveifgras er slitsterk tegund og fjölgar sér með skriðrenglum eða hliðarsprotum fremur en með frædreifingu.

Túnvingull er mjög þurrk- og kuldaþolin tegund og myndar auðveldlega fræ til fjölgunar. Vallarrýgresi er afar slitsterk tegund og þolir mikið álag en er í flestum tilfellum einært við íslenskar aðstæður.

Dæmi um óheppilegar grastegundir í grasflatir eru snarrótarpuntur og varpasveifgras. Snarrótarpuntur er harðgerð tegund og vex gjarnan við erfið skilyrði. Ókostir tegundarinnar eru fyrst og fremst grófgerð grasstrá sem mynda smám saman brúska og þúfur í flötinni. Varpasveifgras er ljósleit grastegund með grunnstætt rótarkerfi og er ekki þurrkþolin. Hún myndar hins vegar mikið af fræi og leggur gjarnan undir sig stór svæði innan flatarinnar.

Tilgangur grassáninga

Sáð er í grasflatir af þremur meginástæðum:

1. Nýsáning, þar sem fræi er sáð til að loka yfirborði, t.d. við nýframkvæmdir. Nýsáning getur komið í stað hefðbundinnar þökulagningar.

2. Viðgerðarsáning, í svæði þar sem skemmdir hafa orðið eða rof myndast í yfirborð.

3. Yfirsáning, til endurnýjunar og viðhalds á flötum. Gras sem slegið er reglulega myndar almennt ekki mikið fræ til endurnýjunar og viðhalds.

Hvenær er rétti tíminn?

Besti tími til nýsáninga er yfirleitt að vori eða snemmsumars. Gott er að framkvæma viðgerðarsáningu eða yfirsá samhliða fyrstu áburðargjöf ársins upp úr miðjum maí.

Leiðbeiningar um nýsáningu

Undirbúningur

Áður en grasfræi er sáð er nauðsynlegt að meta undirlagið, hvort og þá hvaða aðgerða sé þörf til að grasið þrífist sem best. Við mat á jarðvegi þarf að taka tillit til hvort jarðvegur sé þjappaður, loftlaus eða blautur. Við slíkar aðstæður myndar grasið oft ekki heilbrigt og djúpstætt rótarkerfi sem gerir flötina veika gagnvart samkeppni annarra tegunda eins og illgresis. Einnig eru meiri líkur á að smám saman nái mosi undirtökunum og grasið verði afar viðkvæmt fyrir sliti. Því er mikilvægt að losa um þjappaðan jarðveg, t.d. með jarðvegstætara eða hefðbundnum stungugaffli. Grýttur jarðvegur er óhentugur, ekki síst á seinni stigum, t.d. þegar slá þarf grasið. Æskilegt er að fjarlægja allt grjót sem er yfir 20 mm að stærð úr yfirborði.

Efstu 20-30 cm yfirborðsins, sem gjarnan eru kallaðir “vaxtar”- eða “rótarlag”, skipta afar miklu máli varðandi heilbrigði og vaxtargetu grassins. Best er að vaxtarlagið sé gert úr sendnum, loftríkum jarðvegi blönduðum með næringarríkri mold, t.d. er 60% milligrófur sandur (0,25-2mm) og 40% næringarrík mold heppileg blanda. Mómold, sveppamassi og molta innihalda hátt hlutfall af lífrænum efnum og henta því vel í blönduna. Lífræn efni eru mikilvæg öllum plöntum, þau binda næringarefni og miðla til róta, auk þess sem þau halda raka í jarðvegi. Auk þess skapa lífræn efni heppilegar aðstæður fyrir ýmsar örverur sem brjóta niður dautt efni og viðhalda nauðsynlegri hringrás í jarðveginum.

Þegar vaxtarlaginu er dreift og jafnað er gott er að setja út hæla og strengja snúrur á milli til að afmarka útlínur og jafna hæðir. Gæta skal þess að lagþykkt sé sem jöfnust yfir allan flötinn, því annars vill verða misvöxtur í grasinu. Fjarlægja skal allt rótarillgresi og mylja moldarköggla. Fyrir sáningu er gott að gefa lífrænan áburð, t.d. þörungamjöl, kjötmjöl eða hænsnaskít (sjá nánar um æskilegt magn á umbúðum), einnig má nota tilbúinn áburð, t.d. Blákorn (2-3 kg/100 m2). Best er að dreifa áburðinum vel yfir vaxtarlagið og vinna hann niður í jarðveginn með hrífu eða jarðvegstætara. Athugið að sandur einn og sér, t.d. skeljasandur, inniheldur afar lítið af næringarefnum og bindur einnig illa næringarefni og raka. Sendið rótarlag kallar því á meiri áburðargjöf og vökvun.

Sáningin

Hægt er að fá ýmsar tilbúnar fræblöndur sem eru samsettar eftir eiginleikum viðkomandi tegunda til að þola ákveðin vaxtarskilyrði, t.d. sláttuhæð og álag. Mikilvægt er að fræblanda sé valin í samræmi við áætlaða notkun og tilgang. Til dæmis borgar sig ekki að sá flatarblöndu fyrir golfvelli í venjulega grasflöt, þar sem áætluð sláttuhæð er 3-7 mm og sláttutíðni 5-7 skipti í viku.

Fræblöndur á venjulegar grasflatir innihalda gjarnan 3-4 grastegundir í mismunandi hlutföllum, t.d. 50% Vallarsveifgras, 40% Túnvingull og 10 % fjölært Rýgresi.

Fyrir dreifingu er mikilvægt að hræra vel í blöndunni þar sem stærðarmunur fræsins getur valdið ójafnri dreifingu í pokanum. Best er að fylgja leiðbeiningum framleiðanda um fræmagn, sem venjulega koma fram á umbúðum fræblöndunnar eða á heimasíðu framleiðandans. Algengt er að í fyrstu umferð þurfi að nota u.þ.b. 20-40 g/m2 = 2-4 kg/100 m2

Mikilvægt er að fræið sé ekki gamalt því með aldri dregur verulega úr spírunarhæfni. Skoðið því ávallt upplýsingar um síðasta söludag sem eiga að vera á umbúðum fræsins.

Auðvelt er að handdreifa grasfræinu þegar um smærri verkefni er að ræða. Þegar rétt fræmagn hefur verið reiknað út fyrir viðkomandi svæði er gengið í beinum línum enda á milli og dreift með jafnri hreyfingu yfir jarðveginn.

Þegar fræinu hefur verið dreift er mikilvægt að raka létt yfir svæðið, eða nota þar til gerða grastromlu, þannig að fræin grafist lítið eitt niður í jarðveginn. Athugið að sáningardýpt getur verið breytileg eftir fræi en er að öllu jöfnu u.þ.b. 2-10 mm, upplýsingar um æskilega dýpt ættu að koma fram á söluumbúðum fræsins.

Best er að framkvæma grassáningu í þurru veðri því annars er hætt við að fræin festist við skófatnað og verkfæri og dreifist illa.

Þegar sáningu og rakstri er lokið þarf að vökva svæðið vel og halda því röku þar til fræið hefur spírað og rótfest sig. Í þurru veðri er nauðsynlegt að vökva einu sinni til tvisvar á dag til að tryggja að fræið þorni ekki. Best er að nota úðara því kröftug vatnsbuna getur skolað fræinu til. Einnnig skal gæta þess að ekki myndist pollar á yfirborði því við það flýtur fræið til. Venjulega spírar grasfræ á 2-4 vikum en reikna má með að framkvæma þurfi yfirsáningu á svæði þar sem fræ hefur spírað illa eða er ekki nægilega þétt. Athugið að varasamt getur verið að treysta á náttúrulega úrkomu (rigningu), rigning við íslenskar aðstæður er oft úði sem er fljótur að gufa upp aftur. Vökvið með úðara þrátt fyrir einhverja úrkomu.

Þegar fræið hefur spírað, venjulega á 2-4 vikum og náð 7-8 cm hæð (mælt frá rótarhálsi) má byrja slátt. Best er að slá grasið í hárri stillingu fyrstu skiptin, t.d. í 5-6 cm en lækka sláttuhæðina síðan í áföngum niður í 4-4,5 cm sem er hæfileg sláttuhæð fyrir venjulegar grasflatir (sjá nánar í kafla um grasslátt).

Gott er að gefa áburð 2-3 sinnum yfir vaxtartímabilið, lífrænan eða tilbúinn (sjá nánar í texta um áburðargjöf).

Viðgerðarsáning

Þegar gert er við svæði þar sem rof eða skemmd hefur myndast á yfirborði getur verið gott að blanda saman u.þ.b. einni fötu af jarðvegi (moldarblönduðum sandi) og góðri lúku af grasfræi (magn fer eftir umfangi viðgerðarsvæðis). Blöndunni er svo dreift yfir viðgerðarsvæðið, nuddað niður í jarðveginn og þjappað létt yfir. Vökva þarf svæðið eins og lýst er hér að ofan.

Eftir mosatætingu getur grasflöt verið mjög gisin og óþétt. Jafnvel geta stórar berar skellur myndast á yfirborði. Best er að dreifa grasfræi yfir allt svæðið en leggja sérstaka áherslu á ber svæði þar sem stærri sár hafa myndast. Gott er að þrýsta fræinu létt niður í jarðveginn. Eftir sáningu er gott að dreifa milligrófum sandi, t.d. pússningasandi, yfir svæðið, u.þ.b. 2-3 mm á hvern fermetra (u.þ.b. 200-300 kg á 100 m2). Einnig er gott að gefa áburð og kalk eins og lýst er í texta um mosatætingu. Vökva þarf svæðið eins og lýst er hér að ofan.

Yfirsáning

Yfirsáning er fyrst og fremst framkvæmd til að endurnýja og viðhalda grastegundum í flötinni. Gras sem slegið er reglulega í 3,5 – 4,5 cm hæð myndar í flestum tilfellum ekki fræ til að viðhalda heilbrigði og þéttleika.

Best er að yfirsá samhliða fyrstu áburðargjöf, t.d. um miðjan maí. Fyrir sáninguna er gott að raka kröftuglega í gegnum flötina með hrífu til að losa um dautt gras sem fellur á yfirborðið m.a. við slátt og myndar lag af svo kölluðu þæfi (e. thatch). Fræmagn á fermetra ætti að vera gefið upp á umbúðum framleiðanda. Miða má við 1-2 kg á 100 m2. Eftir sáninguna þarf að vökva og gefa áburð eins og lýst er hér að ofan.

Samkvæmt ofangreindri lýsingu er æskilegt að framkvæma sáninguna í þessari röð:

1. Undirbúa jarðveg.

2. Losa þjappaðan jarðveg, t.d. með jarðvegstætara eða gaffli.

3. Fjarlægja rótarillgresi og steina yfir 10 mm að stærð.

4. Mylja moldarköggla.

5. Grófjafna svæði.

6. Bæta við mold ef þörf er á.

7. Dreifa áburði yfir svæðið og vinna saman við moldina.

8. Fínjafna svæði.

9. Sá fræi og valta yfir svæðið.

10. Vökva svæðið vel með vatnsúðara.

Efni og verkfæri:

Grasfræ: Nota skal fræblöndu í samræmi við aðstæður, tilgang og notkun viðkomandi flatar.

Áburður: Gott er að nota lífrænan áburð, t.d. fiski-, kjöt- eða þörungamjög. Einnig má nota tilbúnar áburðartegundir, t.d. Blákorn eða Graskorn.

Malarhrífa: Heppilegt verkfæri til að jafna mold, raka saman steinum, mosa o.fl.

Hey- eða laufhrífa: Heppilegt verkfæri til að raka saman mosa og grasi úr yfirborði, t.d. má nota slíka hrífu úr plasti sem gefur vel eftir og festist ekki á fyrirstöðum.

Jarðvegsskafa: Gott verkfæri til að grófjafna jarðveg.

Vatnsslöngur og -úðarar eru nauðsynlegir í viðhaldi allra grasflata.

Ábendingar: Í vissum tilfellum getur verið gott að nota akríldúk yfir sáningarsvæðin. Dúkurinn heldur hita og raka að svæðinu og flýtir fyrir spírun fræsins. Fylgjast þarf með spíruninni og fjarlægja dúkinn svo hann þvingi ekki grasvöxtinn.

Twitter Digg Delicious Stumbleupon Technorati Facebook

Comments are closed.