Gróðursetning trjá- og runnaplantna
Gróðursetning trjá- og runnaplantna
Úrval trjá- og runnaplantna hefur aukist til muna síðustu árin. Einnig hafa gæði plantna aukist, bæði innlend framleiðsla sem og innfluttar tegundir.
Mikilvægt er að standa rétt að gróðursetningu, m.a. velja plöntunum hentuga staðsetningu, m.t.t. vaxtarrýmis og birtu. Gott er að leita upplýsinga um hvort viðkomandi plöntur séu skuggþolnar eða þurfi ríka sól, einnig skal taka tillit til jarðvegs og regnvatns, séu plöntur t.d. staðsettar undir þakskyggni eða á öðrum þurrum stöðum þarf að gera ráð fyrir reglulegri vökvun. Við val á plöntum og staðsetningu þarf einnig að gera ráð fyrir vaxtarhraða og náttúrulegri stærð viðkomandi tegundar, t.d. er ekki heppilegt að staðsetja hávaxnar tegundir, svo sem aspir, greni, lerki o.fl., þar sem rými er lítið eða fyrirséð að trén muni skyggja á , matjurtareit, sólpalla eða önnur svæði sem hugsuð eru til útiveru í garðinum.
Rétti tíminn til útplöntunar
Vorið og byrjun sumars er í flestum tilfellum besti tíminn til útplöntunar á trjám og runnum. Á tímabilinu júlí – september, þegar plönturnar eru í hvað mestum vexti, eru plöntur hvað viðkvæmastar fyrir flutningi og útplöntun. Plöntur í pottum og með hnaus (hnausplöntur) þola þó flestar vel útplöntun á þessu tímabili. Útplöntun að hausti, áður en fer að frysta er einnig góður tími til gróðursetningar. Við flutning á plöntum, t.d. frá plöntustöð í garð eða sumarbústað, er mikilvægt að ganga vel frá plöntunum til að tryggja að þær verði ekki fyrir hnjaski. Séu plönturnar orðnar laufgaðar þarf að hlífa laufinu fyrir vindi, t.d. er ekki heppilegt að keyra með fulla kerru eða pall af laufguðum trjám eða runnum á miklum hraða án yfirbreiðslu. Vindþurrkun verður afar mikil við slíkar aðstæður, plönturnar þorna hratt og lauf getur jafnvel rifnað af. Við lengri flutning er ávallt best að vökva rætur vel og nota yfirbreiðslur, þ.e. þegar um flutning á opnum kerrum eða pöllum er að ræða.
Hnaus- og pottaplöntur
Algengt er að plöntur séu seldar í pottum eða með striga / grisju um rótarhnausinn (svokallaðar hnausplöntur). Munið að umbúðir, s.s. striga ætti alltaf að fjarlægja við útplöntun, jafnvel þótt talað sé um að striginn rotni með tímanum þá heftir hann ræturnar fyrstu árin og tefur fyrir því að plantan nái rótfestu. Sé um stórar og þungar plöntur að ræða má t.d. losa um strigann eða skera hann í sundur eftir að hnausinn er kominn í holuna. Mikilvægt er að umbúðir særi ekki rótarhálsinn eða takmarki rótarrými.
Fyrir útplöntun er gott að undirbúa jarðveginn þar sem ætlunin er að gróðursetja. Best er að grafa vel rúma holu sem er u.þ.b. tvisvar sinnum stærri að þvermáli en rótarhnausinn á plöntunni. Losa þarf um jarðveg, bæði í botni og hliðum svo rætur geti vaxið óhindrað. Þekjugróður, s.s. gras og fjölært illgresi er gott að fjarlægja í um 50 cm radius frá stofni, sé það til staðar. Einnig er gott að bæta jarðveginn með lífrænum eða tilbúnum áburði fyrir útplöntun.).
Athugið að lífrænn áburður, t.d. molta og sveppamassi hefur jarðvegsbætandi áhrif á jarðveginn. Jarðvegur með hátt hlutfall lífrænna efna bindur betur næringarefni og miðlar þeim til róta trjánna og annarra plantna. Einnig er rakaheldni slíks jarðvegsins meiri og jafnari. Lífrænn áburður stuðlar einnig að heilbrigðri örverumyndun og öðru jákvæðu lífi í jörðinni sem hefur jákvæð áhrif á niðurbrot efna og stuðlar að heilbrigðri hringrás næringarefna (sjá í kafla um áburðargjöf).
Fyrir gróðursetningu er gott að vökva rætur, t.d. hnausinn eða pottinn vel. Sem dæmi má nefna að oft getur reynst vel að dýfa rótarhnausnum (í striga eða potti) í vatn þar til hann er gegnblautur. Þegar rótarhnausinn er losaður úr potti eða striga þarf að losa um rætur og greiða úr þeim, sérstaklega ef þær eru samanflæktar eða vaxa í hringi. Gæta þarf sérstaklega að rótum furu sem hafa tilhneigingu til að mynda svokallaða hringrót. Slíkar rætur eiga það til að vaxa áfram í hringi eftir útplöntun og eiga þ.a.l. erfitt með að ná rótfestu, þrífast illa og hættir til að velta. Séu rætur það langar að þær rúmast illa í holunni er best að stytta þær með beittum greinaklippum. Aldrei ætti böggla eða vefja rótum niður í holuna.
Alltaf er best að planta trénu í sömu dýpt og það hefur áður staðið, þ.e.a.s. yfirborð hnaussins skal vera í sömu hæð og jarðvegsyfirborð. Sögusagnir um að víðitegundum og öspum sé betra að planta dýpra en þær áður stóðu eru einfaldlega rangar.
Athugið að stærstur hluti rótarkerfis trjáa liggur tiltölulega ovarlega, eða í efstu 20 cm því þar er jarðvegur loftríkur, rakur og áburðarinnihald hærra. Eftir því sem neðar dregur í jarðveginum minnkar súrefnið, lausbundnum næringarefnum fækkar og upptakanlegt vatn verður minna. Rætur flestra trjá- og runnategunda eru að megninu til í efri hluta jarðvegsins. Rætur sem liggja dýpra hafa í flestum tilfellum þann tilgang að skapa rótfestu og halda plöntunni fastri. Þetta fer þó að sjálfsögðu eftir jarðvegsgerð hverju sinni.
Eftir að plöntunni hefur verið komið fyrir í holunni í réttri hæð þarf að fylla að rótunum með lausri og næringarríkri moldarblöndu. Moldinni þarf að þjappa vel að rótarhnausnum og mikilvægt er að hvergi séu ófylltar holur við hnausinn.
Eftir útplöntun og fyrstu vikurnar eftir útplöntun þarf að vökva vel. Æskilegt er að vatnið nái að metta jarðveginn u.þ.b. 20-30 cm niður fyrir yfirborðið. Miða má við að þurfi 10-20 lítra á hverja meðalstóra plöntu en það er háð úrkomu hverju sinni.
Berróta plöntur
Úrval svokallaðra berróta plantna hefur aukist á seinni árum, m.a. með breyttum tollalögum á Íslandi. Hér er átt við trjá- og runnategundir sem fluttar eru inn til landsins án allra moldarefna við rætur. Berróta plöntum er best að planta lauflausum, þ.e.a.s. á frostlausum tímabilum frá lauffalli í október til laufgunar í maí. Sígrænum berróta plöntum er best að planta í apríl-maí eða ágúst-september.
Berróta plöntur, eru eins og áður segir ekki með mold á rótum. Þær eru því afar viðkvæmar gegn sólarljósi og þurrki. Varast skal að láta rætur þorna, t.d. við flutning og við útplöntun þarf að skýla rótum gegn sólarljósi og vindi og halda þeim vel rökum. Ekki skal planta á sólskinsdegi, verði því við komið.
Við útplöntun skal að öðru leiti nota sömu aðferð og lýst er í útplöntun hnaus- og pottaplantna.
Bakkaplöntur
Í skógrækt og landgræðslu er gjarnan notast við svokallaðar bakkaplöntur. Þær eru fremur smáar en bakkarnir eru breytilegir að stærð og innihalda mismikið af plöntum, þ.e. 24 – 35 – 40 – 67 stykki. Oftast er útplöntun framkvæmd með plöntustaf en þá er mikilvægt að nota rétta hólkastærð, þ.e.a.s. að holan sem plöntustafurinn myndar passi fyrir hnaus bakkaplöntunnar. Hægt er að leigja plöntustafi hjá skógræktarfélögum og í mörgum tækjaleigum. Flestar bakkaplöntur eru harðgerðar og gera ekki miklar kröfur til jarðvegs eða næringar, þó er ávallt mikilvægt að huga vel að staðsetningu, t.d. ekki planta í hæðir þar sem hætta er á þurrki og ekki í lautir þar sem hætta er á frostpollum. Áburður er einnig mikilvægur til að plönturnar nái góðri rótfestu sem minkar einnig líkur á frostlyftingu. Nota má tilbúinn eða lífrænann áburð, en miða má við 10 – 20g á hverja plöntu. Ekki má setja áburðinn í sömu holu og plantað er í þar sem áburðurinn getur brennt ræturnar. Betra er að dreifa áburðinum umhverfis plöntuna þannig að rótarkerfið teigi sig eftir næringunni til allra átta. Þetta getur valdið því að grasvöxtur verður meiri og hærri umhverfis plöntuna. Vilji maður forðast grasvöxtinn má t.d. gera eina til tvær aukaholur með plöntustafnum við plöntuna og setja áburðinn í þær.
Fyrir útplöntun er gott að dýfa botni bakkans í vatn og láta ræturnar drekka í sig vatnið.
Athugið að þótt bakkaplöntum sé gjarnan plantað út með plöntustaf í skógrækt og landgræðslu er mun betra að planta þeim á hefðbundinn hátt, þ.e. með skóflu (hafi maður tíma til). Á þann hátt má losa betur um jarðveg, blanda áburðarefnum saman við rótarlagið og hreinsa gras eða annan yfirborðgróður frá stofninum. Þetta stjórnast yfirleitt af magni og tíma hverju sinni.
Comments are closed.