Stormur skemmir trjágróður
Mörg tré skemmdust í veðurofsanum 10. apríl 2011
Trjágróður hefur víða í Reykjavík náð töluverðri hæð og aldri. Mörg þessara trjáa hafa vaxið upp fyrir sín skjólsvæði og standa berskjölduð gagnvart veðri og vindum. Í storminum sem gekk yfir suðurland s.l. sunnudag féllu nokkur tré í valinn, urðu fyrir skemmum og eyðilögðust. Sem betur fer urðu engin slys á fólki eða alvarlegir skaðar á mannvirkjum.
Stór reyniviður við Túngötu brotnaði illa og komu björgunarsveitir aðilggjandi húsum til bjargar. Þegar tréð er skoðað sést berlega að um mikla skemmd var að ræða ístofninum, hann klofinn og mikið rot í viðarvefjum. Því er í sjálfu sér ekki að undra að tréð skyldi falli í svo miklum veðurham. Tjónið er ákveðin áminning um að garðeigendur fylgist vel með ástandi trjágróðurs í görðum sínum og bregðist við þegar um sýnilegar skemmdir er að ræða.
Í Fossvogi brotnaði stórt grenitré við miðjan stofn. Slík brot eru nokkuð óalgeng en þegar betur er að gáð er ljóst að hliðargreinar hafa verið fjarlægðar upp eftir miðjum stofni trésins. Við það færist álagspunktur stofnsins frá neðri hluta við rótarháls upp að miðjum stofni. Margir garðeigendur hafa einmitt fjarlægt hliðargreinar grenitrjáa á sama hátt, m.a. til að opna fyrir birtu og útsýni. Aðgerðin hefur óheppilegar afleiðingar í för með sér fyrir tréð, m.a. raskast hita og rakaflæði frá jörðu og upp eftir trjágreinum grenisins. Stórir sárafletir valda trénu miklu álagi og auka líkur á sjúkdómum og vanþrifum. Einnig er algengt að neðstu greinar þorni upp og skemmist í kjölfar þessarar aðgerðar.
Við Vitastíg féll tré um koll. Ljóst er að rótarrými er afar takmarkað sem sést einnig á núvernandi gullregni sem eftir stendur en býr við mjög lítið rótarrými. Í því tilfelli hefur trénu verið plantað mjög nálægt sökkli byggingar og plássleysið smá saman valdið ójafnvægi í vexti trésins. Hér er um fallegt skrauttré að ræða sem blómstrað hefur mikið á síðasta ári. Ljóst er að tréð mun ekki standa lengi við þessar aðstæður og gæti m.a. fallið á nærliggjandi bílskúr, bíl og hús verði ekkert gert.
Það er ljóst að ýmsar ástæður geta verið fyrir því að trjágróður fellur um koll eða brotnar. Aldur trjánna og einkenni hafa töluvert að segja en ekki síður þær aðstæður sem við bjóðum þeim að lifa við. Mestu skiptir að við þekkjum eðli og einkenni trjánna og getum brugðist við á réttan hátt, m.a. til að fyrirbyggja ótímabærarar skemmdir á trjánum og tryggt öryggi nærstaddra.
Comments are closed.